Íslandsmeistaramót í Götuhjólreiðum 2014

preview_player
Показать описание
Íslandsmót í götuhjólreiðum fór fram í dag. Hjólað var frá Grindavík til Þorlákshafnar og til baka samtals um 113 kílómetra leið. Ingvar Ómarsson og María Ögn Guðmundsdóttir eru Íslandsmeistarar 2014 en geysilega hörð barátta var í báðum flokkum og réðust úrslit í endaspretti.

Aðstæður til keppni voru góðar en nokkuð stífur mótvindur var í fyrri hluta keppninnar auk þess sem Suðurstandarvegur er býsna grófur á löngum köflum. Keppnin fór vel fram og urðu engin óhöpp.

Í kvennaflokki voru hjólaðir 85 kílómetrar og sigraði María Ögn Guðmundsdóttir. Í öðru sæti var Kristrún Lilja Júlíusdóttir og þriðja varð Ása Guðný Ásgeirsdóttir.

Keppni í karlaflokki var afar hörð og komu fyrstu þrír keppendur í mark á sömu sekúndu. Fyrstur var Ingvar Ómarsson. Í öðru sæti var Hafsteinn Ægir Geirsson og Óskar Ómarsson varð þriðji.

Í unglingaflokki urðu þau Kristín Edda Sveinsdóttir og Óðinn Örn Einarsson Íslandsmeistarar.

Fremsti hópur kvenna mótaðist strax í Ísólfsskálabrekkunni, eftir um 3 kílómetrar. Sá hópur hélst að snúningspunkti þegar þær Kristín Edda og Þorbjörg misstu af hópnum. Ása, Hrefna, Kristrún, Margrét og María unnu svo þétt saman að Ísólfsskálabrekkunni þegar um 8 kílómetrar var í mark. Í brekkunni var stigið aðeins fastar á pedalana og reynt að þreyta andstæðinginn og þegar upp var komið hafði Hrefna aðeins dottið aftur úr en Ása, Kristrún, Margrét og María nokkuð jafnar. Þá var brunað af stað niður á yfir 80 kílómetra hraða og í snörpum hliðarvindi. Margréti fipaðist á niðurleiðinni og missti af hópnum meðan Ása, Kristrún og María gáfu allt í botn fyrir síðustu kílómetrana. Þegar um 2 kílómetrar voru eftir missir Ása af Kristrúnu og Maríu í brekku og María og Kristrún berjast áfram að marklínu þar sem María kemur fyrst í mark og Kristrún 3 sekúndum síðar. Ása, Margrét og Hrefna fylgja svo á eftir í þessari röð á næstu 30 sekúndum. Kristín Edda kom næst í mark og sigraði unglingaflokkinn. Keppnin einkenndist af töluverðum vindi úr öllum áttum og snörpum vindhviðum og mátti oft litlu muna að keppendur lentu saman.
Рекомендации по теме